Main image
18th December
2010
written by admin
Comments Off
18th December
2010
written by admin

17. desember Við komum til Union Glacier búðanna kl. 03.30 Chile tíma , kl. 06.30 að Íslenskum tíma.
Það tók okkur 20 daga , 12 klukkutíma og 30 mínútur að fara héðan, á Suður Pólinn og þaðan á Ross íshelluna og svo aftur til baka. Við höfum tekið hverju því sem náttúruöflin hafa á okkur lagt með forvitni, stolti og virðingu. Við höfum hikað, bognað og beðið en aldrei brotnað á leið okkar.

Comments Off
16th December
2010
written by admin

Jæja erum að tanka , vonandi í síðasta sinn í þessari ferð.

Það hefur verið  rafmagnað loftið hjá mannskapnum síðustu klukkutímana .  Það skiptist á tilhlökkun um að koma heim, kvíði yfir því að ná ekki nógu snemma á leiðarenda í flugið okkar og söknuður yfir því að ferðin sé á enda.  Þetta  er pínulítið eins og þegar menn vilja drífa sig og keyra hraðar áður en eldsneytið klárast  eða eitthvað annað kemur uppá sem heft getur för.  Allir vitum við þó að þegar upp er staðið er betra að ganga hægt en örugglega inn um gleðinnar dyr.  Þó ekki séu nema 250 km eftir að Paitroit Hill og 40í viðbót að Union Glacier flugbrautinni , þá er það tímafrekt rölt ef ekkert er ökutækið.

Erum að vona að við getum fylgt slóða héðan eftir snjótroðara sem var hér um daginn. Það þýðir að við náum að halda betri hraða og ef björtustu vonir ganga eftir verður næsta stopp í kvöld eða nótt við ísflugbrautina.  Við gerum ekki ráð fyrir að fara að búðunum í Patriot Hills.

Meira síðar.

Kveðja . Gunni Egils.

Comments Off
14th December
2010
written by admin

Góðan og blessaðan daginn .

Þá er loksins hægt að senda fréttir af okkur, hefur verið nóg að gera hjá okkur og ef maður á að velja á milli hressilegs slags og baráttu við náttúru og bilaðra bíla annars vegar og að setjast við tölvu og skrifa hins vegar, þá ætti það ekki að koma ykkur á óvart að ég valdi brasið.

Við  prufukeyrðum  i  gær eftir að við höfðum skipt um spíss no 3. Þetta leit bara vel út og í framhaldinu var tekið saman og öll óhreinindi eftir viðgerðina fjarlægð. Við höfum passað þetta mjög vel að hvergi sjáist eftir okkur snifsi eða blettur á drifhvítum snjónum hér. Þannig komum við að og þannig viljum við að komandi kynslóðir  fái tækifæri til að koma að þessari einstöku náttúru í framtíðinni.   Eftir véla viðgerðina og drifskiptin hef ég nú hlotið nafnbótina Doktor Gunni  ;-)

Hér er frábært veður, -20°C , hægur vindur og auðvitað sól, datt m.a. segja niður í -16°C í dag og menn gerðu sig bara klára til að skarta stuttbuxunum.  Okkur sóttist ferðin frekar seint þar sem ekki reyndist hægt að aka eftir gamla trakkinu okkar nema stutta vegalengd. Þegar kom að fyrsta sprungusvæðinu var það deginum ljósara að við þurftum að finna nýja leið yfir. Bæði voru sprungurnar opnari og svo hitt að í minna frosti og meiri sólbráð hefur snjóskelin yfir sprungunum  ekki eins mikið burðarþol.  Leiðina varð því að velja af kostgæfni , erum með dýrmætan farm af góðu fólki og svo vigtum við líka nokkur grömm eða þannig. Menn skiptust á að ganga á undan bílunum yfir erfiðustu svæðin, skoða ,pikka,pota og hoppa.  Þetta fór allt vel en vissulega mátti oft ekki mikið útaf bregða og það komu stundir þar sem brak í snjónum eða brestur í snjóskel fékk blóðið til að frjósa í æðum okkar.  Annars skilst mér að Andrew Regan vilji meina að ég hafi bara 50 % blóð í skrokknum, hin 50% eru frostlögur ,ha,ha,ha,

Færið hefur að öðru leiti verið ágætt og bílarnir  haldið friðinn þar til núna fyrir stutt að SSV1 er ekki að ganga á öllum. Það er ekkert mál að keyra svoleiðis en fyrst það var ákveðið að stoppa hér í 3-4 tíma, elda, teygja úr sér og hvíla mannskapinn smávegis á jaginu í bílunum þá ákvað ég að henda mér í að athuga hvort ég sjái í fljótu bragði hvað er að. Væri ekki hissa á því að það þurfi að skipta um annan spíss.  Valdi og Pete voru meira en til í þessa léttu viðgerðar æfingu í góða veðrinu og  eru byrjaðir að rífa, svo ég verð að haska mér við tölvu-pikkið.

Við eigum nú eftir  799 km. af rúmlega 1.200 km.sem er  vegalengdinni frá Pól að Patriot Hills og svo 40km að flugbrautinni.   Við stefnum enn á að komast af ísnum fyrir jól, þessi  jól.

Kveðja frá okkur öllum.  Gunni Egils.

Comments Off
13th December
2010
written by admin

Fékk fréttir af Gunnari og félögum í nótt kl. 01.20.- / Viðgerð lokið, það var 3 spíssinn sem var að svíkja okkur. Erum að taka okkur saman og halda af stað. Ísbjarnargengið Gunnar og Valdi.

Comments Off
13th December
2010
written by admin

Jæja það er og !

Við erum staddir 25 km frá Pólnum og höfum  verið stopp frá því í gær.

Til að byrja með tók sig upp gamalt mein í SSV2 , það virðist vera að bifreiðin fái ekki það eldsneyti sem hún þarf vegna gróðurmyndunar í olíunni og það  teppir eðlilegt flæði.  Okkur hefur þó tekist að halda því í bærilegu ástandi með því að stoppa reglulega og blása úr síunum.

Öllu verra var að ofan á eitt eða tvennt annað smálegt fór SSV1 líka  að vera  með eitthvert fret og fúsk,  gekk  illa eða ekki  og sýndi öll merki þess að það sama væri að hrjá hann og litla bróðir. Á þessu fór að bera þegar við vorum komnir ca. 8 km frá Pólnum.   Við blésum síurnar, skiptum um þær og gerðum allt það er okkur datt til hugar og reyndum að finna einhvern flöt á þessu og bæta úr. Ekkert gekk og þá var bara eitt að gera, hringja í vin :o)  Ég reyndi að hringja í Ólaf Leósson á Ljónstöðum, því ef einhver gat hjálpað okkur í gegnum síma þá var það hann.  Karlinn var þá með starfsfólkinu sínu á jólahlaðborði að eiga notalega stund.  En af því að ég veit af fyrri reynslu að hann er með eindæmum bóngóður þá fékk ég kerlu mína til að fara í nótt og trufla teitið og bera Óla bón mína um að ég mætti hafa samband. Þetta gekk eftir , Óli tók þessu vel eins honum er lagið og hjálpaði okkur við að bilanagreina bílinn. Við fikruðum okkur áfram og prufuðum allt sem okkur datt til hugar og skiptumst á hugmyndum um , hvað, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo.  Oft héldum við að nú væri þetta að komast í lag , ókum nokkra km. en þá hófst sama sagan enn á ný .  Þegar þetta hafði gengið svona fram undir morgun  kom allt í einu annað hljóð sem greip athygli okkar. Stopp ! út og undir , já það leyndi sér ekki hvað hafði komið upp á núna. Við vorum með brotið afturdrif, einmitt það sem okkur vantaði ,,eða þannig :o(  Það var þó kostur að ekki þurfti neitt að velta vöngum yfir því hvað væri til ráða í þessum vanda. Það var bara eitt í stöðunni , skipta um drifið. Allir hjálpuðust að og grafin var hola ofan í snjóinn sem við nýttum svo sem viðgerðargryfju þegar bíllinn var kominn yfir hana. Það var lán okkar að veðrið hefur verið gott, gola og    -29 °C sem leggur sig í -33°C með vindkælingu, nánast bara hlýtt og gott m.v. síðustu daga. Þarna vorum við í 25 km. fjarlægð frá Pólnum og þar erum við enn. Sett var upp matartjaldið svo hægt væri að elda og hita drykki ofl.   Það er nú búið að skipta um drifið en  það hefur ekki horfið frá okkur  gamla vandamálið,  að enn hefur ekki fengist nokkur gangur í vél SSV1. Enn var leitað til Ljónsstaða Óla og við erum komnir á þá skoðun að það verði ekki undan því vikist að rífa ventlalokið og skipta um spíssa.  Viðgerðamenn hafa reynt að skiptast á í þessari törn að leggja sig og nú fer að koma að mér að fá mér snús.  Valdi og Pete hafa staðið sig eins og hetjur, gengið að hverju verki 100% , þeir eru nú að rífa ventlalokið og ætla að ræsa mig þegar því er lokið.  Kannski verðum við heppnir og komumst af stað aftur  eftir 3-4 tíma.

Ljónsstaða Óli ! ef þú lest þetta þá þakka ég þér kærlega fyrir að taka svona vel ónæðinu frá mér, nótt sem dag og alla hjálpina bæði núna og þegar ég hef áður í ferðinni fengið að njóta góðra ráða hjá þér.  Það kemst enginn með tærnar þar sem þú hefur hælana í þessum málum. Valdi biður fyrir knús og kossa til allra ættingja og vina og extra ,extra kveðju til konu sinnar,barna og barnabarna.                                                    Bless og góða nótt. Gunni Egils.

Comments Off
9th December
2010
written by admin

Frá síðasta pistli get ég nú tilkynnt ykkur að við höfum náð markmiði okkar. Við erum búnir að aka yfir Suðurskautslandið, frá Union Glacier  á suður Pólinn og þaðan að Ross íshellunni. Erum nú staddir á  85,27° Suður og 150° Vestur, með bakið í fjöllin og horfum yfir frosinn flóann í áttina að McMurdo.

Í bílunum höfðu menn það eins gott og  hægt var við þessar aðstæður.  Andrew  Regan og Paul  tóku upp á því að spila kotru og fljótlega var það borðleggjandi hver yrði krýndur Kotru kóngur ferðarinnar, Andrew Regan  var með yfirburðastöðu eftir spennandi leik sem tók litla 17 tíma þar til Paul loksins lýsti yfir uppgjöf . Pete, Vern og Georg ákváðu að sofa í tjaldinu  í nótt  og við félagarnir höfum reynt öll trikkin í bókinni  til að vita hvað fékk þá til að velja tjaldið fram yfir þrengslin í bílunum. Strákarnir vilja meina að ég og  Moon hafi annað hvort hótað þeim eða mútað , svo við fengjum sjálfir betra pláss í bílnum. Ekki minnist ég þess nú             Ótrúlegt en satt þá var ekki að sjá á þeim að það hefði farið eitthvað illa um þá , voru manna           hressastir þegar þeir voru vaktir.

Er vindinn tók að hægja  í gær var farið í að tanka af tunnunum sem eftir voru og pakka saman tjaldinu. Það var ennþá strekkingsvindur  en  ekki meiri en svo að það dugðu 4 menn til að koma í veg fyrir að tjaldið fyki frá okkur.  Ég þurfti aðeins að kíkja undir bíl og dytta að hinu og þessu. Það hafði farið hjá mér sjálfskiptikælirinn , lenti í ís, og ætlaði ég að skoða það að tengja framhjá ef þyrfti.  Á þeim tíma var -49°C   með vindkælingu þannig að maður klæddi sig vel, varði alla bera bletti vandlega. Þó fór það þannig að önnur skálmin á utanyfir buxunum mínum hafði ekki farið alveg yfir snjóbomsuna  mína og þar blés inn. Ég var að brölta undir bíl og tók ekkert eftir þessu fyrr en  eftir að ég kom inn í bíl og buxurnar byrjuðu að  þiðna. Bruna tilfinning undir  öðru hnénu og þegar að var gáð þá hef ég frostbrunnið lítillega þar. Ekki gott mál en er í meðhöndlun og vonast maður bara til að þetta reddist.

Við héldum af stað staðráðnir í að ná yfir að fyrirheitnu ströndinni við Ross íshelluna. Á leiðinni ókum við fram á 10 manna hóp fá McMurdo stöðinni sem hafði þá verið á leiðinni í nokkra daga að mjaka sér yfir ísinn. Þeir ferðast um á 9 farartækjum af fullorðinni stærð, 2 risa snjótroðurum, 4 stórar Catepillar ýtur, Case beltatæki og hjólaskóflugræju. Allt dró þetta æki með 3000 tonna olíubirgða tönkum ásamt öðrum farmi .  Okkar bilar voru líkari Jaris-hnöppum við hlið venjulegs 44“ breytts bíls , þegar við stoppuðum að heilsa upp á kappana og skiptast á ferðasögum.  Gríðarlega gaman að hitta á þessa reynslubolta. Þeir sögðu okkur t.d. að slóðinn sem við vorum að fylgja væri síðan í fyrra. Þeir væru að fara núna með vistir og olíubirgðir  á suður Pólinn, Það væri un hagkvæmara að aka með þetta heldur en  fljúga, en auðvelt ferðalag væri það ekki og sérstaklega ekki þetta árið. Nú hefðu þeir hitt fyrir verstu skilyrði sem þeir höfðu séð síðastliðin 18 áreins og Terry Billings sagði en hann var forsvarsmaður hópsins. Þeir voru búnir að hafast við í tjöldum í nokkra daga vegna veðurhamsins sem hafði gengið yfir þá eins og okkur. Þeir færðu okkur rauðvín að gjöf til að fagna áfanga okkar þegar við næðum niður á strönd og buðu okkur í  jólaköku , ekta fína og bara eins og heima, JÓLAKÖKU með rúsínum og alles. Mannskapurinn þeirra var allur að moka upp farartækin sín sem höfðu fennt í kaf , ákafir að halda af stað á Pólinn.  Þeir komu hins vegar og skoðuðu bílana okkar og þó ég segi sjálfur frá þá voru þeir býsna hrifnir af því sem fyrir augu bar.  Þeir buðu okkur líka að skoða búðirnar sínar og var það bæði fróðleg t og skemmtilegt. Fínir kallar þarna á ferð, afslappað og vinalegt viðmótið hleypti í okkur nýjum krafti.  Þeir höfðu ofur trú á því að okkur tækist að klára ferðina niður á strönd og lyftu svo upp bjartsýninni hjá okkur að okkur fór að liggja á að halda áfram , kvöddum þessa herramenn og óskuðum þeim góðs gengis.

Áður en við yfirgáfum þá spiluðum við hátt og snjallt uppáhaldslag leiðangursins fyrir þá, við mikinn fögnuð og hlátur. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að lagið heitir :    ‘I Can See Clearly Now’

Við höfum á ferð okkar af Pólnum farið úr 2.880 m/hæð , niður í 2.300 m þar sem við stoppuðum. Hittum Amerikanana  í 500 m hæð og erum nú , 17 tímum eftir að við lögðum af stað í gær í 200 m hæð. Stöndum í dásamlegu veðri , sól og heiðum himni í -7 °C á ströndinni,  komnir að leiðarlokum í bili, eða eins og hvarflaði að mér eitt augnablik,“ Sæunn nú kemst ég ekki lengra frá þér, ef ég held áfram er ég farin að nálgast þig ,, Nei þá sný ég frekar við hahahaahahahaha…

Vissulega togar það í okkur að þeysa út á ísilagðan flóann og halda til Mc Murdo stöðvarinnar. Eftir að hafa vegið og metið aðstæður okkar og ástand bíla og búnaðar og með því að gera ráð fyrir að eiga minnsta möguleika á að halda upphaflega áætluðum brottfaradag af Antarticu yfir til Chile og þaðan heim á klakann þá var það niðurstaðan að við látum hér staðar numið í þetta sinn.

Nú erum við að teiga í okkur náttúrufegurðina hér, ósnortið landið með háum fjallatindum og dölum sem kalla á mann að koma og sjá og upplifa. Ekki síður er mikilfenglegt að horfa út á Ross íshelluna sem virðist svo sakleysisleg að sjá héðan og eins langt og mannsaugað eygir, slétt og glansandi eins og fegursta skautasvell.  Við vitum þó betur nú , þetta er eitt mesta veðravíti jarðar og ísöldurnar og sprungurnar leynast þarna undir frosinni snjóslæðunni.

Eftir hvíld hefst ferðin til baka á Pólinn.

Sækjum BIV græjuna og það dót annað sem við skildum eftir þar, heilsum og kveðjum.

Við erum á heimferð.

Comments Off
8th December
2010
written by admin

Einn enn dagur sem staðfestir að það er greinilega partý hjá náttúruöflunum, Frosti konungur, Happadísin, Örlaganornin og Veðurdísirnar á djamminu  og skemmtikraftarnir erum við :o)

Við erum búnir að vera stopp í rúma 15 tíma á ísnum, höldum sjó,  eins og sagt er að sjómannasið þegar veðrið er það vont að hvorki er hægt að koma eða fara.  Veðrið hér er arfa vitlaust. Snjóblinda og vindhraðinn hefur verið 55-65 km á klst. og í kviðunum hefur slegið í 80-90 km á klst. Spáin fyrr næstu  12 tímana hljóðar upp á 70-80 km á klst. og í kviðunum allt að 100 km á klst.

Rúsínan í pylsuendanum er sú að þetta á að vera svipað næstu nótt en svo á að fara að hægja vind, niður í 30-40 km á klst. og 50 km á klst í vindkviðum.  Það er því nokkuð ljóst að við erum ekki að fara neitt næstu klukkutímanna.  Ofan á þetta bætist að svæðið sem við erum að nálgast er þekkt fyrir að vera með hvað hæstar snjóöldur , allt að 1 – 1.5 metra háum, bröttum og grjóthörðum.  Það væri glópskan eina að ætla sér að halda áfram við þessi skilyrði, allt of mikil hætta á að eyðileggja  hjólabúnað og stýrisbúnað bílana. Bílarnir eru okkar skjól og líflína og án þeirra er leiðangrinum lokið.

Góðu fréttirnar eru hins vegar að við erum með nógar eldsneytisbyrgðar, gætum þess vegna haldið bílunum hér í gangi til 22. Desember ,,ekki  að það sé á óskalistanum okkar en gott að vita :o)

Ég sagði ykkur frá því síðast að menn hefðu verið að skiptast á að fara út og byggja skýli fyrir gasið okkar svo hægt væri að elda mat og bræða snjó. Já , það er skemmst frá því að segja að þetta var hin mesta apavinna, snjófjúkið sá algjörlega við öllum tilburðum Verns, Petes og George , og fyllti  skýlið hratt og örugglega.

En það er með þetta eins og svo margt annað , það er alltaf ein leið eftir, og hana fundum við. Það var ákveðið að mannskapurinn dubbaði sig upp og tjaldaði eldhústjaldinu  hvað sem Kára kallinum fyndist um það.  Sex fullorðnir karlmenn  köstuðu sér á tjaldið og börðust við bæði Frosta og Kára á meðan  restin festi það við ísinn vel og vandlega. Svo var það reist, gert og græjað, húrra fyrir okkur við höfðum sigrað eina lotu.  Þessu gátum við fagnað gríðarlega enda stórbætti þessi kastali aðstæður okkar til mikilla muna.

Yfirbrytinn töfraði fram kjúkling og pasta okkur til ánægju. Við bræddum okkur drykkjarvatn og hituðum drykki  og þvottavatn. Lífið varð bara  allt í einu dásamlegt aftur. Kuldagretturnar á andlitunum breyttust í bros og brosin í hlátur yfir aðförum okkar við að reisa þetta mikla mannanna virki.

Eftir matinn og fráganginn sjáum við sæng okkar útbreidda við að nota tjaldið við  aðrar og ekki síður mikilvægar  athafnir sem óhægt er um vik að koma í verk úti í blessaðri náttúrunni við þessar aðstæður.

Ray er þessa stundina að sinna einu af rannsóknarverkefnum  leiðangursins. Þetta er athugun og mælingar á viðbrögðum mannslíkamans við áreiti og erfiðar aðstæður svo sem kulda, ótta eða annað það sem kemur hjartanu til að slá með öðrum takti en venjulega.  Við þessa rannsókn er hann vopnaður Toumaz Sensium nemum. Hann festir 2  skynjara á líkamann, sitt hvoru megin við hjartað og tengir þá við síritann. Síritinn nemur hjartslátt , hita, raka og hverja smá hreyfingu eins og t.d. skjálfta og sendir upplýsingarnar þráðlaust í móttakara í fartölvu sem aftur skráir allar niðurstöðu í sérstakt forrit. Kosturinn við þetta er að hann nýtur nú stöðugs heilsu eftirlits án þess að þurfa að hafa nokkur samskipti við lækna eða annað heilbrigðisstarfsfólk, hann þurftir ekki einu sinni að panta tíma hjá doktornum.

Það hefði verið fróðlegt að sjá niðurstöðurnar ef Rey hefði verið tengdur við þetta tæki þegar við vorum að fara yfir verstu sprungu svæðin :o)

Dagsverki okkar flestra er nú lokið í bili og menn reyna að finna sér eitthvað að dunda við meðan beðið er eftir að veðrinu sloti. Bílarnir mala notalega, það sækir syfja að sumum, aðrir eru ný vaknaðir.

Andrew Regan er óþeytandi við að telja í okkur kjarkinn og minna okkur á að það að bíða sé besti valkostur okkar í þessari stöðu.

Yfir og út þegar allt er í hnút , því við leysum hann :o)

dem..er maður orðinn skáldmæltur allt í einu.

Sjáið þið ekki fyrirsagnirnar fyrir ykkur : Skáldmælt fyrirsæta mætir í skötuveislu á Stokkseyri þann 23. desember. hahahahahahahahah

Held ég ætti að fara að leggja mig.

Comments Off
7th December
2010
written by admin

Góðan daginn kæru vinir.

Héðan er það helst að frétta að við höfum verið stopp nú um nokkurn tíma sökum leiðinda veðurs og lélegs skyggnis. Það er hvasst og snjófjúk, rokkar á milli -23°C upp í -30°C en í þessum sterka vindi smýgur kuldinn inn um allt og stoppar ekki fyrr en hann er kominn inn að beini. Það er okkar tilfinning þegar við höfum þurft að fara út.

Annars var happadísin á ferðinni með okkur í gær, við fundum slóð eftir snjóbíl eða hálfgerða ýtu af stærri gerðinni og gátum fylgt henni. Við fréttum að þetta væri farartæki sem notað er til að draga farma á milli McMurdo stöðvarinnar og Suður Pólsins og vissum því að okkur væri ´hætt að fylgja þessari slóð.  Þetta jók heldur betur ferðahraðann okkar, vorum að ná 50-55 km hraða og sóttist vel þrátt fyrir að slóðinn er auðvitað eins og þvottabretti Grýlu gömlu. Það hefði verið leikur einn að strokka smjör úr rjóma á nýju ólimpíumeti í bílunum.  Það hafði verið spáð einhverjum rudda í veðurkortunum og fyrr en varði fór að bæta í vind með tilheyrandi snjófjúki. Þar sem við höfum ekki punkta af leiðinni sem snjóbíllinn  hafði ekið og urðum að treysta á sjónina hafði snjóblindan  þau áhrif að við vorum að tapa slóðinni af og til og lentum þá í mjúkum og djúpum snjó.   Bakka, snúa, leita og halda áfram, það var uppskriftin.  Þessi heppni okkar hafði strax áhrif á eldneytisnotkun bílanna , miklu minni eyðsla sem var gott en jafnframt var okkur mikið í mun að tæma tunnurnar sem við drógum á eftir okkur. Á svona harðri og hrufóttri leið eykst hættan á því að tunnurnar fari að leka eða jafnvel slitni af sleðunum og það var einmitt það gerðist. Þegar SSV2 ók upp að okkur og við vorum að ræða það að fara að stoppa og tanka, tókum við eftir því að ekkert var aftan í SSV2. Þeir trúðu okkur auðvitað ekki í fyrstu , minnugir þess  þegar ég tapaði sleðanum aftan úr SSV1  fyrr í ferðinni en komust að beiskum sannleikanum skömmu síðar. Það var snúið snarlega og farið eftir trakkinu til baka. Allt fannst þetta sem betur fer en þetta var dreift um langa vegalengd , mikið lán að hafa fundið þetta strax því nú var veðrið heldur betur að skella á okkur, byrjað að hvessa og kólna. Við unnum saman við að tanka á bílana og skiptumst á við að dæla, kuldinn var ólýsanlegur og óvæginn, skelltist yfir mann um leið og maður  steig  út úr bílnum. Jamie  sá um að jafna loftþrýstinginn í dekkjunum og í ákafa sínum til að skila sínu verki bæði fljótt og vel gerði hann  mistök sem hefðu getað orðið honum og okkur öllum dýrkeypt. Hann tók af sér vettlingana til að ná betri tökum á ventlinum en þá vildi ekki betur til en hann missti hettuna , fann hana strax aftur og kom henni á. Þetta var ekki nema kannski mínúta eða tvær en samt nóg til þess að bregðast varð við strax svo ekki hlytist kalsár af. Hann áttaði sig sem betur fer strax á mistökunum og stökk inn í bíl þar sem Valdi tók á móti honum. Valdi sá strax hvað var að og hjúkraði og hitaði honum af kunnáttusemi og natni. Það eru góðar líkur á að það hafi heppnast vel og Jamie verði ekki meint af en þetta var alvarleg áminning til okkar allra um að taka engar fljótfærnislegar ákvarðanir. Góðir hlutir gerast hægt. Eftir að við höfðum lokið verkum og allir komnir um borð var haldið áfram. Skyggnið var nánast orðið minning ein og sífellt erfðra var að halda sig á slóðinni enda fennti og fauk jafnóðum í hvert spor. Eftir u.þ.b. 10 km. var vindurinn orðinn það hvass og skyggnið horfið ásamt því að yfirborðið var farið að vera mun grófara ákváðum  við Valdi að hér væri ekkert vit í að vera að þenja sig á móti náttúruöflunum. Við snérum bílunum upp í vindinn svo þeir tækju minni vind á sig og ákváðum að hinkra í þeirri von að vindurinn færi að ganga niður.  Tíminn notaður til að nærast og hvílast, koma frá sér fréttum og hugsa heim til ykkar.   Kv. Gunni  Egils

Comments Off
6th December
2010
written by admin

Halló, halló, hef ekki komist í að setja inn fréttir fyrr en núna  ;o(

Við tókum 1.820 lítra af eldsneyti á Pólnum og svo erum við með 6 tunnur aukalega í eftirdragi. Vorum með þær á kerrunni fyrst en ákváðum að létta okkur um sem nemur þyngd hennar og setja tunnurnar á sleða. Það tók okkur rúman klukkutíma að afferma kerruna og skipta tunnum og öðrum farangri  á milli bílanna.    Við höfðum fengið þær uppl. á Pólnum að á leiðinni  gæti verið mikill og mjúkur snjór enda gengur þetta svæði undir nafninu Mýrin, hjá staðarhöldurum.

Við héldum áfram ferð okkar frá Pólnum , í átt að Ross  íshellunni . Jamie,  skemmtanastjóri setti iPodinn á og menn nutu þess að vera nú komnir inn í heita bílana. Það gekk mikið betur að keyra núna  með bílana svona léttari og svo höfðum við líka hleypt helling úr dekkjunum ,ökum nú með ca. 3 punda þrýsting . Strákarnir hafa allir tekið miklum framförum við að aka í snjó, og þeir vanda sig við að spóla ekki , enginn vill verða til þess að við festum  bílinn.

Það að er búið að vera bras á okkur , vorum  komnir ca. 75 km frá Pólnum þegar annar bíllinn fór að hita sig heldur ótæpilega  og það var stoppað  til að kíkja á hvað  væri að. Ekki er nú hægt að tala um að veðurdísirnar séu neitt að missa sig af ástúð í okkar garð, það er snjófjúk, skyggni  lítið, frostið fer upp í -43°C  sem skilar um -52 stiga kulda í vindkælingunni. Það er þó eitt  gott við snjómugguna ,,við sólbrennum þá ekki á meðan.

Niðurstaða klukkutíma skoðunar og „diskóteringa“  á SSV2 var að hann þjáðist af súrefnisskorti, kældi  sig ekki þegar við ókum á 3-5 km hraða í þessari miklu hæð,bílarnir mjög hlaðnir, mikill  snjór og við að fara  undan vindi.   Álagið er gríðarlegt á bílana.  Hér varð að grípa til aðgerða ef við ætluðum ekki að fenna þarna föst.  Við Valdi og Pete  klæddum okkur eins vel og hægt er miðað við að þurftum að geta hreyft okkur við viðgerðina :o/  Það var KALT eiginlega alveg Icecool ! Andrew Moon vék ekki frá okkur, vappaði í kringum okkur með áhyggjusvip , tilbúinn að rétta okkur verkfæri eða annað sem þyrfti. Vern sem alltaf er að nota tímann og hugsar fyrir öllu var strax kominn á stjá, hann sendi Jamie og Paul upp á þak  að ná í matvörur meðan aðrir voru látnir  byggja upp vegg úr snjó til að skýla gasinu fyrir vindinum. George gíraði sig upp og fraus nánast fastur við cammeruna við að mynda  öll herlegheitin enda var nú brostið á það versta veður sem við höfum fengið hingað til á Antarctica.  Allt gerist þó svo ótrúlega hægt í svona kulda. Maður þurfti oft að bíta fast á jaxlinn áður en maður tók af sér vettlinginn augnablik til að l setja bolta eða ró á sinn stað.  Hér reyndi verulega á hópinn að vinna saman sem einn maður.  Við losuðum allt sem hægt var að vera án af vélarhúsinu eftir að hafa gert við og vildum með því auðvelda kælinguna á vélinni. Það er auðvitað ekki annað hægt að  en hlæja með strákunum af þessari kaldhæðni örlaganna að  þegar kaldasti dagurinn okkar rennur upp þá er hitavandamál að hrjá bílana ha,ha,,  En svona er þetta ,eitthvað svo  skemmtilega öfugsnúið.   Vern sá um að færa mönnum heitt kaffi eða súkkulaði og ég fullyrði að hann bjargaði oft, á þessum  klukkutímum sem viðgerð stóð yfir , lífi okkar. Það passaði líka flott hjá honum að þegar við vorum búnir, bíllinn kominn í gang  og við vorum að hreinsa svæðið af öllum ummerkjum eftir okkur þá var ilmandi Stroganoff  A-la-Vern tilbúið og ..SÆLL OG BLESSAÐUR.. hvað það var vel þegið.

Við þurftum engar fortölur hver á annan til að ákveða að halda áfram akstrinum, skiptast á að keyra og hvílast í bílunum. Það langaði engum út í þetta veður að reisa tjaldbúðir, allavegana ekki nærri,nærri strax.

On we go- HO-HO-HO.

Comments Off
Previous